Fræðsla

Hin lífsbjargandi trú og kristnu gildi

„Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og af öllum mætti þínum. Þessi orð, sem ég boða þér í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum. Þú skalt hafa þau yfir þegar þú situr heima og þegar þú ert á faraldsfæti, þegar þú leggst til svefns og þegar þú ferð á fætur. Þú skalt binda þau sem tákn á hönd þína og hafa þau sem merki milli augna þinna. Þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og borgarhlið þín.“  5 Mós 6:4-9


Þessi ritningarvers eru megin stefið í 5. Mósebók. Þau eru forskrift að því hvernig við getum tengt Orð Guðs við okkar daglega líf. Við eigum að elska Guð, hugleiða stöðugt boðorð hans og kenna þau börnunum okkar. Við erum hvött til að láta orð hans leiða okkur sérhvern dag.

Guð leggur hér áherslu á hversu mikilvægt það er að foreldrar kenni börnum sínum Biblíuna. Þeir geta ekki skýlt sér á bak við kirkjuna eða kristna skóla og forðast þannig ábyrgðina sem felst í því að uppfræða börnin um lífsbjargandi trú og kristin gildi.

Biblían lætur okkur í té svo mörg viðfangsefni til að takast á við og með því að taka fordómalaust við leiðsögn hans getum við lært fjölmarga hagnýta hluti. Það væri í rauninni synd að gera það bara einu sinni í viku, þ.e.a.s.  á sunnudögum. Áhrifamest er að læra um eilífan sannleika á guðhræddu heimili, í umhverfi þar sem Guð er virtur og elskaður.

Jesús sagði, að það að elska Guð af öllu hjarta sínu, af öllum huga sínum og af öllum mætti sínum, væri fyrsta og mikilvægasta boðorðið (Matt 22:37-39). Þetta boðorð, ásamt því að elska náunga okkar (3 Mós 19:18), dregur saman grunngildi Ritningarinnar (sem er kærleikur)  í fáeinar setningar, og leggur undirstöður að voninni eilífu og hinni lífsbjargandi trú. „Á þessu hvílir allt lögmálið og spámennirnir“, sagði Jesús.

Hebrear voru geysilega sterkir í því að gera trúna að órjúfanlegum þætti í lífinu. Ástæðan fyrir því var sú að trúarleg menntun var ekki upplýsingamiðuð, heldur lífsmiðuð. Þeir notuðu aðstæður daglegs lífs til að kenna um Guð. Lykillinn að því að kenna börnum sínum að elska Guð, er tilgreindur á einfaldan og skýran hátt í þessum versum. Ef við viljum að börnin okkar læri að fylgja Guði, þá þurfum við, sem fyrirmyndir, að rækta sambandið við hann á hverjum degi. Við verðum að kenna börnunum okkar af kostgæfni að tengja Guð við öll svið lífs okkar – ekki bara þau svið sem snerta kirkjuna.

Megi Guð varða lífsgöngu þína og blessa þér daginn!

logo1 invert

Staðsetning

Fossaleyni 14
112 Reykjavík

Hafðu samband

Sími: 567 8800
Email: kristskirkjan@kristskirkjan.is

Opnunartímar

Þri - Fim: 12 - 16 | Fös: 12 -15
Nánar um samkomur og aðra viðburði