Spurningar og svör

Geta allir gengið í söfnuðinn?

Já, svo framarlega sem þeir trúa á Jesú Krist, fella sig við lög safnaðarins og starfsaðferðir hans.

Er eitthvað sérstakt sem er öðruvísi við aðild að Íslensku Kristskirkjunni en öðrum söfnuðum?

Já, aðild að söfnuðinum getur verið tvenns konar:

  • A. Hægt er að skrá sig til fullrar þátttöku og vera þannig virkur meðlimur. Þetta geta þeir sem eiga lifandi trú á Jesú Krist, líta á Biblíuna sem æðsta kennivald hvað varðar trú og breytni og eru sammála kenningargrundvelli safnaðarins (sjá lög hans). Virkir meðlimir hafa tillögu og atkvæðisrétt á aðalfundi safnaðarins.

  • B. Hinn valkosturinn er að vera aðeins skráður meðlimur. Sá kostur er einkum hugsaður fyrir þá sem vilja tilheyra kristnum söfnuði, en eru ekki þegar í stað tilbúnir til virkrar þátttöku og fullrar ábyrgðar. Skráðir meðlimir njóta allrar þjónustu sem kirkjan veitir, rétt eins og virkir meðlimir, en hafa ekki atkvæðisrétt á aðalfundi.

Eru kenningar Íslensku Kristskirkjunnar öðruvísi en annarra kristinna safnaða?

Íslenska Kristskirkjan er lútherskur söfnuður og því er kenningargrundvöllur hans í aðalatriðum sá sami og þjóðkirkjunnar. Auk þess vill söfnuðurinn tileinka sér áherslur frumkirkjunnar m.t.t. náðargjafa Heilags anda og annarra þátta sem stuðluðu að miklum árangri kristinnar kirkju á fyrstu öldum e. Kr. Þetta kemur fram í meiri sveigjanleika í starfsaðferðum og helgihaldi.

Ef ég geng í Íslensku Kristskirkjuna, þarf ég þá að ganga úr þeim söfnuði sem ég er í núna?

Já, vegna þess að íslensk lög heimila ekki fólki að vera skráð samtímis í tvo hérlenda söfnuði.

Hvernig skrái ég mig í söfnuðinn?

Þú berð ósk þína upp við prest safnaðarins, sem ræðir við þig um ákvörðun þína. Hann útskýrir fyrir þér hvað þarf til að ganga í söfnuðinn og ef þú fellir þig við það, fyllir þú út þar til gert skráningareyðublað (sem hefur yfirskriftina “Skráning í trúfélag”) sem gefið er út af Hagstofunni. Þetta eyðublað færð þú hjá okkur. Þar skal taka fram úr hvaða trúfélagi (söfnuði) þú hverfur og í hvað þú gengur (Íslensku Kristskirkjuna í þessu tilfelli). Við leiðbeinum þér við útfyllingu eyðublaðsins og skrifstofa safnaðarins sér síðan um að koma því til Hagstofunnar.

Kostar eitthvað að vera í Íslensku Kristskirkjunni?

Nei, það kostar ekkert. Hins vegar innheimta skattyfirvöld með opinberum gjöldum af hverjum einstaklingi 16 ára og eldri, sérstakt lögboðið kirkjugjald (kallað “sóknargjald” í þjóðkirkjunni) sem er u.þ.b. 10,000  kr. á ári. Slíkt gjald er innheimt af öllum skattgreiðendum eins og menn vita og skilað hinum ýmsu söfnuðunum í landinu og þá í réttu hlutfalli við meðlimafjölda. Skattstjóri sér um að koma gjaldinu til skila til safnaðanna, og þar með talið til okkar. Þótt þetta gjald sé ekki hátt, hjálpar það til við fjárhagslegan rekstur safnaðarins. Mikilvægasti tekjustofninn er þó frjáls framlög safnaðarmeðlimanna sjálfra. Allir sem skráðir eru í söfnuðinn eru hvattir til að styðja starf hans fjárhagslega eftir getu hvers og eins, enda eru frjáls framlög sjálfra safnaðarmeðlimanna mikilvægasti tekjustofninn. Enginn er þó skyldugur til að gefa og fjárframlög eru ekki skilyrði fyrir þátttöku. Íslenska Kristskirkjan nýtur engra styrkja frá ríki eða borg.

Er Íslenska Kristskirkjan fullgildur söfnuður?

Já, hún er skráð sérstakri lögskráningu hjá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og hefur þar með starfsleyfi sem fullgilt trúfélag. Prestur hennar hafa umboð frá ráðuneytinu til að framkvæma allar lögformlegar og kirkjulegar athafnir svo sem skírn, hjónavígslu og greftrun.

logo1 invert

Staðsetning

Fossaleyni 14
112 Reykjavík

Hafðu samband

Sími: 567 8800
Email: kristskirkjan@kristskirkjan.is

Opnunartímar

Þri - Fim: 12 - 16 | Fös: 12 -15
Nánar um samkomur og aðra viðburði